Innskráning í Karellen

Meginreglur Hjallastefnunnar

Meginreglurnar eru grundvöllurinn að öllu starfi Hjallastefnuskóla. Þær er í reynd bæði stefnuyfirlýsing og hugmyndafræði skólanna og fela í sér þá lífssýn og mannskilning sem allt starfsfólk sameinast um. Meginreglurnar eru sex, þær eru í skýrri forgangsröð og byggir hver regla á þeirri sem á undan kemur. Markmið þeirra er að byggja upp jákvæða og kærleiksríka skólamenningu. Hlutverk meginreglnanna er að tryggja að starfsaðferðir og skólaskipulag séu í fullkomnum takti við hugsjónir frá hinu stærsta til hins smæsta.


Fyrst meginregla: Börn og foreldrar

Hjallastefnunni er ætlað að mæta hverju barni eins og það er og virða og viðurkenna ólíkar þarfir aldurshópa, kynja og einstaklinga. Skólanum ber einnig að virða valfrelsi og ólíkan áhuga barna og hlúa á víðfeðman hátt að velgengni allra.


Önnur meginregla: Starfsfólk

Hjallastefnunni er ætlað að stuðla að því að jákvæðni, gleði og kærleikur séu ráðandi öfl í samskiptum starfsfólks svo og í öllum samskiptum við börn og foreldra og aðra sem koma að málum skólans.


Þriðja meginregla: Umhverfi

Hjallastefnunni er ætlað að skapa samfélag innan hvers skóla þar sem jafnvægi, einfaldleiki og gagnsæi er ráðandi í dagskrá, umhverfi og búnaði og reglur eru sýnilegar og áþreifanlegar. Þannig gefst börnum skiljanlegt og viðráðanlegt umhverfi miðað við aldur þeirra, þroska og getu.


Fjórða meginregla: Efniviður

Hjallastefnunni er ætlað að bjóða upp á leikefnivið og einföld námsgögn þar sem sköpun og ímyndun er í fyrirrúmi í fjölbreyttri reynslu hvers barns. Þannig skapar sjálfbjarga fólk eigið nám og leikheim með eigin lausnum og raunveruleikatengd verkefni eru í fyrirrúmi.


Fimmta meginregla: Náttúra

Hjallastefnunni er ætlað að kenna börnum að skynja og njóta náttúrulegs umhverfis og virða náttúruna með nýtni, nægjusemi og hófsemi svo og með umhirðu og endurvinnslu.


Sjötta meginregla: Samfélag

Hjallastefnunni er ætlað að þjálfa aga og hegðun á jákvæðan og hlýlegan en um leið ákveðinn og hreinskiptinn hátt. Með nákvæmni og festu verður taminn vilji leiðin til öryggis og frelsis fyrir alla í rósemd og friði innan skólasamfélagsins og síðar til ábyrgrar þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

© 2016 - Karellen