Innskráning í Karellen

Námskrá skólans

Ítarleg skólanámskrá leikskólans Akurs : skólanámskrá Akurs yfirfarin 2020


Námskrá leikskólans Akurs byggir á hugmyndafræði Hjallastefnunnar. Svokallaðar meginreglur liggja til grundvallar allri hugmyndafræði Hjallastefnunnar og eru þær því birtar hér sérstaklega.


Fyrsta meginregla: Börn og foreldrar

Hjallastefnunni er ætlað að mæta hverju barni eins og það er og virða og viðurkenna ólíkar þarfir aldurshópa, kynja og einstaklinga. Skólanum ber einnig að virða valfrelsi og ólíkan áhuga barna og hlúa á víðfeðman hátt að velgengni allra.


Önnur meginregla: Starfsfólk

Hjallastefnunni er ætlað að stuðla að því að jákvæðni, gleði og kærleikur séu ráðandi öfl í samskiptum starfsfólks svo og í öllum samskiptum við börn og foreldra og aðra sem koma að málum skólans.


Þriðja meginregla: Umhverfi

Hjallastefnunni er ætlað að skapa samfélag innan hvers skóla þar sem jafnvægi, einfaldleiki og gagnsæi er ráðandi í dagskrá, umhverfi og búnaði og reglur eru sýnilegar og áþreifanlegar. Þannig gefst börnum skiljanlegt og viðráðanlegt umhverfi miðað við aldur þeirra, þroska og getu.


Fjórða meginregla: Efniviður

Hjallastefnunni er ætlað að bjóða upp á leikefnivið og einföld námsgögn þar sem sköpun og ímyndun er í fyrirrúmi í fjölbreyttri reynslu hvers barns. Þannig skapar sjálfbjarga fólk eigið nám og leikheim með eigin lausnum og raunveruleikatengd verkefni eru í fyrirrúmi.


Fimmta meginregla: Náttúra

Hjallastefnunni er ætlað að kenna börnum að skynja og njóta náttúrulegs umhverfis og virða náttúruna með nýtni, nægjusemi og hófsemi svo og með umhirðu og endurvinnslu.


Sjötta meginregla: Samfélag

Hjallastefnunni er ætlað að þjálfa aga og hegðun á jákvæðan og hlýlegan en um leið ákveðinn og hreinskiptinn hátt. Með nákvæmni og festu verður taminn vilji leiðin til öryggis og frelsis fyrir alla í rósemd og friði innan skólasamfélagsins og síðar til ábyrgrar þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.


Kynjanámsskrá Hjallastefnunnar

Kynjanámskráin er útfærsla á hugmyndafræði Hjallastefnunnar, þar sem markmiðið er að tryggja jafnrétti kynjanna, sem og annarra hópa, og veita börnum frelsi frá neikvæðum afleiðingum kynjakerfisins og staðalmyndum. Hjá Hjallastefnunni er gengið út frá þeirri kennisetningu að kynin öðlist takmarkaða færni og æfi of fáa eiginleika vegna heftandi hugmynda um kynhlutverk og vegna kynjamótunar sem samfélagið ákvarðar á grundvelli kyns. Kynjanámskráin tryggir að öll börn fái heildstæða þjálfun í mannlegum eiginleikum óháð kyni, en markmiðið er að veita börnum tækifæri til að leika og læra á eigin forsendum án takmarkanna sem kynjakerfið setur.

Með kynjanámskránni er skólaárinu skipt í sex lotur og er hver lota í fjórar vikur. Loturnar byggjast á því að þjálfa og bæta bæði einstaklings- og félagsfærni hvers barns. Þrjár þeirra einkennast af þjálfun og styrkingu eiginleika og færni sem er oftar tengd við karlmennsku á meðan hinar þrjár einkennast af þjálfun og styrkingu eiginleika og færni sem er oftar tengd við kvenleika. Með því að fylgja eftir öllum sex lotum fær hvert barn því heildstæða þjálfun í einstaklings- og félagsfærni, þar sem jafnvægi ríkir á milli eiginleika sem eru oft tengdir við kyn. Allir þættir kynjanámskrárinnar eru þó ávallt í forgrunni í öllu skólastarfinu.

Ítarlegri upplýsingar um kynjanámskrá Hjallastefnunnar


Dagskrá Hjallastefnunnar

Dagskrá Hjallastefnunnar byggir á þeirri hugmynd að daglegt líf barna í fjölmennu samfélagi leikskólanna þurfi að vera svo einfalt og gagnsætt að hvert barn læri á umhverfi sitt á fáum dögum. Einnig að þau geti síðan treyst því að ytri ramminn breytist ekki, þannig geta börnin öðlast frelsi þess sem þekkir aðstæður sínar og sem veit ávallt hvað bíður að morgni dags. Dagskrá Hjallastefnuleikskóla þarf því að uppfylla tvær af hugmyndafræðilegum meginreglum stefnunnar, þ.e. reglu þrjú um einfaldleika, gagnsæi og merkingarbærni auk reglu sex um agað umhverfi og agað leikskólastarf.

Sem leið að markinu byggir dagskráin á hópa- og valtímum til skiptist. Í hópatíma er fastur hópstjóri/kennari sem starfar með sama jafningjahópi barna (hvað aldur, kyn og vistunartíma varðar) allt skólaárið og á valtíma velja börnin sér viðfangsefni skv. valkerfi Hjallastefnunnar.

Hópatímar

eru tímar þar sem samvera barna og fullorðinna er skipulögð innan ákveðins ramma í ákveðinn tíma dagsins sem tryggir m.a:

  • einstaklingsathygli fyrir hvert barn, þ.e. „enginn getur gleymst".
  • öryggi hvers barns. Að geta gengið að einum starfsmanni vísum, sem gefur athygli sína, alúð og er til staðar.
  • hverju barni einn, fastan málsvara og stuðningsaðila sem hefur hagsmuni „sinna" barna í forgrunni.
  • að hver kennari/hópstjóri beri ábyrgð á „sínum börnum" og tengist þeim sérstaklega.
  • foreldrum örugga leið til eins ákveðins kennara/hópstjóra eftir upplýsingum.
Hópatímar eru fullorðins-stýrðir tímar og eru:
  • til að skapa vandaðan leikramma fyrir jafningjahópa. Dagleg kynjablöndum fer fram hér.
  • ætlaðir fyrir verkefni sem krefjast aðstoðar eða þar sem er þjálfa þarf ákveðna færni.
  • til þess gerðir að áhugi hvers barns fái sín notið til fullnustu.

Valtímar

eru heiti hins frjálsa leiks og eru leiktími þar sem áhugi hvers barns á leiksvæðum ræður ferðinni.
Með vali er verið að tryggja þrenns konar þjálfun:

  • Æfa vilja sinn, þ.e. vita hvað þau vilja.
  • Koma vilja sínum á framfæri.
  • Æfa hæfilegt mótlæti þegar þau fá ekki vilja sínum framgengt.


Námskrá fyrir læsi og stærðfræði

Lagður er grunnur að læsi frá byrjun leikskólagöngu á Akri. Það er gert m.a. með því að efla hljóðkerfisvitund og orðaforða með ýmsum skemmtilegum aðferðum.

Hér er læsis og stærðfræðiáætlun Akurs.




Ýmsar upplýsingar um Hjallastefnuna er að finna á fræðsluvef:

Smellið hér til að opna fræðsluvef

Athugið að fræðsluvefurinn opnast í nýjum glugga

© 2016 - Karellen