news

Viðburðir í júní

21. 06. 2019

Það hefur aldeilis verið nóg að gera í júní á Akri.

Hjóladagurinn heppnaðist mjög vel og fengum við lögregluþjón til okkar en hann gaf börnunum límmiða á hjólin sín stór og smá. Allir voru að sjálfsögðu með hjálma og fengu að hjóla eins og vindurinn stóran part af deginum.

Hestarnir frá Krakkahestum kíktu við hjá okkur en þetta er orðin árleg hefð á Akri. Allir sem vildu fengu að fara á bak í öruggu umhverfi inni í lundinum okkar. Nærgætnir starfsmenn Krakkahesta aðstoðuðu börnin og þau virtust skemmta sér konunglega.

Umhverfisdagurinn var haldinn hér í garðinum okkar á Akri en þá mættu sjálfboðaliðar til vinnu við að setja niður plöntur sem við fengum af gjöf frá foreldri. Foreldrar,börn og kennarar tóku höndum saman og græjuðu garðinn og svo fengu allir heimaeldaða súpu ala Sigrún Gyða. Nú er vökvað eins og enginn sé morgundagurinn og öll börn fá reglulega fræðslu um hvernig eigi að umgangast plönturnar okkar með virðingu.

Að lokum hélt foreldrafélag Akurs hina árlegu sumarhátíð í blíðskaparveðri hér á Akri. Svo heitt varð á tímabili að fólk flúði inn úr sólinni af og til til þess að kæla sig. Við eigum öfluga forsvarsmenn í foreldrafélaginu okkar sem elduðu pylsur fyrir alla og gáfu svala með. Hún Ronja Ræningadóttir kom og skemmti hópnum og allir virtust vel njóta.



© 2016 - Karellen